Vinátta og bangsinn Blær
Í Sólhvörfum leggjum við áherslu á að kenna börnunum okkar að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju, virðingu og hugrekki. Það er ástæðan fyrir því að við völdum að taka þátt í og tileinka okkur hugmyndafræði verkefnis á vegum Barnaheilla sem kallast Vinátta. Um er að ræða forvarnarverkefni gegn einelti fyrir börn á leikskólaaldri og fyrstu bekki grunnskóla. Verkefnið kemur frá Danmörku og heitir á frummálinu „Fri for mobberi‟. Verkefnið er þróað og mótað af Red barnet og Mary Fonden.
Markmið verkefnisins er að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Grundvöllur þess að vel takist til er þátttaka allra í leikskólanum; barna, starfsfólks og foreldra. Sérstök áhersla er lögð á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti án þess að bregðast við því.
Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu og með klípusögum, umræðum, nuddi, söng og leikjum læra börnin um gildi vináttu með aðstoð frá Blæ. Hvert og eitt barn fær lítinn bangsa sem táknar samfélag vináttu. Bangsarnir eru eign barnanna en þeir eru geymdir í leikskólanum þar til börnin hafa útskrifast og eru hugsaðir sem hluti af þessu verkefni. Þeir eru geymdir hver í sínu hólfi á deildunum en fá að sjálfsögðu mikla umhyggju og ást.
Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirfarandi fjórum gildum:
- Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við aðra af virðingu. - Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra. - Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra. - Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.