Í Sólhvörfum fylgjast leikskólakennarar og sérkennslustjóri með þroskaframvindu barnanna með markvissum hætti. Eitt af þeim verkfærum sem stuðst er við til að fylgjast með námi og þroska barnanna eru skimunarlistar/próf sem eru lögð fyrir öll börn á tilteknum aldri. 

Skimunarlistar

EFI-2 er málþroskaskimun sem lögð er fyrir öll börn á fjórða ári. Tilgangurinn er að kanna málskilning og tjáningarfærni barna og finna þau börn sem þurfa á markvissri málörvun að halda.

Skimunin er lögð fyrir af fagfólki með tilskilin réttindi en fyrirlögn tekur um tíu mínútur. Barn og kennari eiga saman rólega stund og skoða myndabók með sjö myndum. Kennari leitar svara við ákveðnum spurningum sem flestar tengjast myndum í bókinni. Svör barnsins gefa vísbendingu um hvernig málþroski þess er miðað við jafnaldra; hvar styrkur barnsins liggur og hvort um er að ræða veikleika á einhverju sviði.

Gefi niðurstöður til kynna einhver frávik í málþroska er haft samband við foreldra. Mælt er með því að þau börn sem koma slök út fari í málörvunarhóp í leikskólanum. Í sumum tilvikum er tekin ákvörðun um frekari íhlutun í samráði við foreldra.

HLJÓM-2 er próf í leikjaformi sem er lagt fyrir elsta árgang leikskólans til að meta mál- og hljóðkerfisvitund. Með hljóðkerfisvitund er átt við að barnið geri sér grein fyrir að tungumál hafi ákveðið form og það skipti ekki bara máli hvað er sagt, heldur einnig hvernig það er sagt. Barnið gerir sér þannig grein fyrir hljóðfræðilegri uppbyggingu talaðs máls.

Prófið er lagt fyrir á haustin en fyrirlögnin tekur um 20 - 30 mínútur. Niðurstöður gefa marktækar vísbendingar um áhættu varðandi síðari lestrarörðugleika og eru því mikilvægar fyrir markvissa vinnu á lokaári barnanna í leikskólanum. Allir foreldrar fá upplýsingar um niðurstöðu síns barns í bréfi þar sem einnig er bent á leiðir og námsefni til að örva mál- og hljóðkerfisvitund. Þá er niðurstöðum skilað til þess grunnskóla sem barnið mun hefja nám í.

Málörvunarhópar eru myndaðir í kringum þau börn sem koma út með slaka færni. Eftir rúmlega þriggja mánaða vinnu er prófið lagt fyrir aftur. Ef útkoman er óbreytt er málið skoðað í samráði við foreldra og ákvörðun tekin varðandi frekari íhlutun.