Sérkennsla

Vakni grunur hjá foreldrum eða leikskólakennurum um frávik í þroska hjá barni er leitað eftir aðstoð sérkennslustjóra sem setur ákveðna verkferla í gang. Lögð er áhersla á að byrja strax á markvissri vinnu með barnið. Sérkennsluhópar, þar sem unnið er með mismunandi áherslur, eru starfræktir í Sólhvörfum og er mælst til þess að barnið fari í slíkan hóp.

Leyniherbergið

Sérkennsluherbergi leikskólans gengur undir nafninu ,,Leyniherbergið” sem gerir það að vinsælu vinnurými. Þangað fara börn í vinnustundir og geta ástæðurnar verið margvíslegar, m.a. málþroskafrávik eða frávik af öðrum toga. Í málörvunarstundum eru börnin ýmist ein með kennara eða í hópi annarra barna með svipaðan vanda. Í Leyniherberginu er lögð áhersla á boðskiptaleiðina Tákn með tali (TMT) og myndrænt skipulag. Verkefnin sem tekin eru fyrir eru ýmiskonar, bæði aðkeypt og heimagerð. Sú staða kemur stundum upp að það þarf að sérhanna verkefni til að þjálfa tiltekna færni. Með tímanum höfum við komið okkur upp veglegum verkefnabanka með fjölbreyttum viðfangsefnum.

Nálganir í sérkennslu

Tákn með tali (TMT)
Í Sólhvörfum leggjum við áherslu á notkun Tákn með tali (TMT). Tákn með tali er tjáningarform sem er ætlað heyrandi fólki sem glímir við mál- eða talörðugleika og byggist það á samblandi af látbrigðum, táknum og tali. Táknin eru alltaf notuð samhliða töluðu máli og aðeins lykilorð setningarinnar eru táknuð. Þannig hægir TMT einnig á tali og það verður skýrara. Þegar tákn með tali er notuð sem leið til tjáskipta örvar hún jafnframt málvitund og málskilning barnsins.

Tákn með tali hefur hjálpað mörgum börnum sem ekki eru farin að nota talmálið og eiga, af einhverjum ástæðum, erfitt með að gera sig skiljanleg í daglegum samskiptum. TMT hjálpar þeim að skilja talað mál og ýtir undir og styður við að þau noti sjálf talað mál. TMT eykur sjálfstæði þeirra sem nota það því það verður auðveldara fyrir þau að tjá sig um þarfir, óskir og líðan.

TEACCH (e. Treatment and Education of Autistic and related Communications Handicapped Children)
Áhersla er lögð á að aðlaga umhverfið að þörfum einstaklingsins, nota sjónrænar vísbendingar og haga aðstæðum á þann hátt að þær efli sjálfstæði hans. Innan TEACCH líkansins hefur verið þróuð kennsluaðferð sem nefnist skipulögð kennsla (e. Structured Teaching). Kennslan byggir á því að skipuleggja umhverfið, setja upp vinnukerfi, dagskrá og sjónrænt boðskiptakerfi til að veita yfirsýn yfir það sem er framundan. Hægt er að nota skipulagða kennslu hvar sem er og við hvaða aðstæður sem er.