Nám í leikskóla

Í leikskóla er mikilvægur grunnur lagður að þroska barna sem allt annað nám byggir á. Litið er á leikinn sem helstu náms- og þroskaleið ungra barna. Í lögum um leikskóla (nr. 90/2008) segir: „Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta”. Í aðalnámskrá leikskóla (2011) er tekið í sama streng og mikilvægi leiksins undirstrikað: „Leikur er meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn” (Aðalnámskrá leikskóla, 2011, 37).

Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ung börn læra best í gegnum leik. Engin athöfn sem stýrt er af fullorðnum er talin hafa sömu áhrif á nám barna og leikurinn. Einnig hefur verið sýnt fram á að leikur styður við þróun læsis og gegnir þannig mikilvægu hlutverki í málörvun og lestrarnámi barna í leikskólastarfi. Leikurinn býður upp á ótal möguleika til málnotkunar en þykjustu- og hlutverkaleikir eru þeir leikir sem hafa hvað mest áhrif á málþroska og boðskiptahæfni barna. Í gegnum leikinn læra þau ný orð og hugtök og tjá hugsanir sínar og tilfinningar í samskiptum við önnur börn. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að málþroski barna sem leika sér mikið er betri en þeirra sem leika sér minna, enn fremur er félagsfærni þeirra meiri og þau hafa meira ímyndunarafl.