Að byrja í leikskóla er stórt skref og ný reynsla, bæði fyrir foreldra og barn. Mikilvægt er að góð samvinna og gagnkvæmur trúnaður ríki milli foreldra og kennara því það er forsenda þess að leikskóladvölin verði barninu árangursrík og ánægjuleg.
Foreldrar og börn saman í aðlögun
Leikskólinn er samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman, staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er þátttökuaðlögun sem byggist á því barnið sé að læra að vera í nýjum aðstæðum. Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað.
Þátttökuaðlögun hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár hérlendis. Aðferðin hefur verið reynd í skólum sem starfa í anda Reggio Emilia í Svíþjóð í nokkur ár og gefist vel. Hún felst í því að foreldrar og börn eru saman í aðlögun. Áður en barnið hefur leikskólagöngu er fundur haldinn með foreldrum og starfsfólki þar sem starfsfólkið kynnir sig, deildina og segir frá því sem framundan er. Foreldrar dvelja svo með barninu sínu í leikskólanum fyrstu þrjá dagana í aðlöguninni. Foreldrar eru, ásamt starfsfólki, inn á deild allan daginn með barninu (nema í hvíld þegar barnið sefur). Foreldrar sinna sínu barni; skipta á því, gefa því að borða og eru til staðar. Á fjórða degi mætir barnið um morguninn, kveður foreldra og dvelur svo í leikskólanum allan daginn. Einstaka þurfa á foreldrum sínum að halda í fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá.
Öruggir foreldrar - örugg börn
Hugmyndafræðin á bak við þátttökuaðlögun er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að virkja foreldra til þátttöku frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og milli þeirra skapast oft vinskapur.