Foreldrafélagið í Sólhvörfum hefur verið mjög öflugt og mikill vilji til að efla samstarf og samráð milli félagsins og leikskólans. Í þeirri viðleitni hefur stjórn félagsins og aðstoðarleikskólastjóri fundað reglulega yfir vetrartímann.
Kosið er í stjórn foreldrafélagsins á árlegum aðalfundi félagsins sem haldinn er að hausti. Að jafnaði situr einn fulltrúi foreldra af hverri deild í stjórn foreldrafélagsins.
Foreldrafélagið hefur staðið að og skipulagt árlega sveitaferð, sólstöðuhátíð og þrettándagleði. Hefð er fyrir því að foreldrafélagið bjóði jólasveininum á jólatréskemmtun barnanna sem hann þiggur ávallt með þökkum.
Stjórn foreldrafélagsins þarf að samþykkja starfsáætlun leikskólans og aðrar áætlanir er varða starfsemi leikskólans s.s. skóladagatal. Þá veitir stjórn foreldrafélagsins umsagnir um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfinu og fylgist með framkvæmd áætlana um starfsemi skólans. Stjórnin hefur einnig tekið að sér tilfallandi verkefni s.s útgáfu foreldrahandbókar og gerð skólanámskrár.
Greiðsla á félagsgjaldi jafngildir aðild að félaginu. Félagsgjöld fara í sjóð sem notaður verður til að standa straum af kostnaði við væntanlegar uppákomur. Innheimt er tvisvar á ári og er mikilvægt að foreldrar greiði gjöldin á réttum tíma svo hægt sé að halda dagskrá.
Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við fulltrúa í stjórn félagsins ef þeir hafa einhverjar tillögur fram að færa til að betrumbæta samstarf heimilis og skóla eða annað er viðkemur leikskólastarfinu.
Lög foreldrafélagsins
I. kafli Nafn og markmið
1. Félagið heitir Foreldrafélag leikskólans Sólhvarfa. Félagar eru foreldrar og forráðamenn barna í leikskólanum Sólhvörfum.
2. Heimili félagsins og varnarþing er í leikskólanum Sólhvörfum, Álfkonuhvarfi 17, 203 Kópavogur.
3. Markmið félagsins er að stuðla að velferð barna leikskólans.
II. kafli Aðalfundur
4. Aðalfundur félagsins er haldinn á kynningarfundi foreldra að hausti og skal haldinn á tímabilinu frá 1. október til 20. október ár hvert.
5. Aðalfund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara og telst því aðeins löglegur sé löglega til hans boðað. Aðalfund skal boða á heimasíðu leikskólans og með tölvupósti til foreldra/forráðamanna.
6. Á aðalfundi skal taka fyrir eftirtalin mál:
a. Skýrsla stjórnar b. Reikningar félagsins c. Kosning nýrrar stjórnar d. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga e. Lagabreytingar f. Ákvörðun um félagsgjald g. Önnur mál |
Komi til atkvæðagreiðslu um einstök mál á aðalfundi skal einfaldur meirihluti ráða.
7. Í stjórn félagsins skal kjósa 7 fulltrúa, að lágmarki einn frá hverri deild. Vægi atkvæða skal vera með þeim hætti að hver forráðamaður/foreldri hafi eitt atkvæði (óháð fjölda barna).
8. Við ákvörðun um félagsgjald skal fyrirkomulag vera með þeim hætti að innheimt er eitt gjald fyrir hvert heimili/fjölskyldu. Gjaldkeri sér um innheimtu gjaldsins en stjórn ákveður hvernig innheimtu skuli háttað.
9. Starfsár stjórnar foreldrafélagsins skal vera eitt skólaár.
III. kafli Starfshættir stjórnar
10. Leikskólastjóri kallar stjórn foreldrafélagsins saman til fyrsta fundar fyrir 1. nóvember ár hvert.
11. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að loknum aðalfundi, á fyrsta fundi stjórnar, og velur í embætti: Formanns, ritara, gjaldkera, kynningarstjóra.Leikskólastjóri starfar með stjórn foreldrafélagsins og einn fulltrúi starfsmanna. Í forföllum leikskólastjóra starfar aðstoðarskólastjóri með stjórninni. Fulltrúi starfsmanna skal kosinn meðal starfsmanna í allsherjarkosningu.
12. Stjórn foreldrafélagsins ákveður fastan fundartíma einu sinni í mánuði á sínum fyrsta fundi. Á öðrum fundi foreldrafélagsins skal lögð fram fram verkáætlun fyrir komandi starfsár.
13. Fundargerðir stjórnar skulu lagðar fram til samþykktar á næsta fundi eftir gerð þeirra.
14. Komi til atkvæðagreiðslu í stjórn skal meirihluti ráða niðurstöðu.
15. Ef tveir aðilar innan stjórnar óska eftir aukafundi skal boða til hans innan viku frá beiðni til formanns.
IV. kafli Verkefni foreldrafélagsins
16. Stjórn foreldrafélags leikskólans Sólhvarfa skal sinna þeim verkefnum sem foreldraráði eru falin skv. 2. mgr. 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. Stjórnin skal gefa umsagnir um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans, svo sem skóladagatal. Stjórn foreldrafélagsins veitir ennfremur umsagnir um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfinu. Foreldrafélagið fylgist með framkvæmd áætlana innan leikskólans og sér um kynningu þeirra gagnvart foreldrum í samstarfi við leikskólastjóra. Foreldrafélagið skal ennfremur kynna sér og styðja leikskólann í öðrum málum er varða velferð barna og starfsfólks leikskólans t.d. aðbúnað, starfsmannamál, sérkennslu og foreldrasamstarf.
17. Foreldrafélagið skal standa fyrir ferðum og skemmtunum fyrir leikskólabörn, foreldra og starfsfólk í samráði við leikskólastjóra. Þá skal foreldrafélagið styrkja og styðja leikskólann við leikfangakaup og kaup á öðrum þeim búnaði sem gagn er af fyrir börn leikskólans.
18. Foreldrafélagið skal á hverju skólaári halda a.m.k. einn fræðslufund varðandi uppeldisstarf leikskólans, þroska og velferð barna.
V. kafli Upplýsingagjöf til foreldra
19. Fundargerðir og umsagnir stjórnar foreldrafélagsins skulu birtar á vef leikskólans auk þess sem senda skal tölvupóst á alla foreldra og forráðamenn þegar umsagnir stjórnar foreldrafélags liggja fyrir. Fréttabréf um starfsemi foreldrafélagsins skulu send út a.m.k. að hausti og að vori. Áður en lögbundnar umsagnir, skv. 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. eru samþykktar í ráðinu skal ennfremur vekja athygli á slíku með kynningu til foreldra/forráðamanna.
VI. kafli Lagabreytingar og slit félagsins
20. Lögum þessum má aðeins breyta á löglega boðuðum aðalfundi. Tillögur að breytingum þurfa að vera skriflegar og hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi 15. september og skulu sendar félagsmönnum með fundarboði. Til að samþykkja breytingar á lögum þessum þarf minnst aukinn (2/3) meirihluta atkvæða á aðalfundi.
21. Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna eignir þess til leikfangakaupa leikskólans Sólhvarfa.