Einkunnarorð og hugmyndafræði
Lögð er áhersla á virðingu, sjálfræði og virkni í öllu starfi í Sólhvörfum.
Starfað er eftir hugsmíðahyggju sem byggir á kenningu Jean Piaget um nám og þroska barna. Áhersla er lögð á sjálfræði barnanna en hugtakið vísar til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þekkingu og vangaveltum um hvað maður sjálfur telur rétt og rangt. Sjálfræði felur í sér ábyrgð og sjálfsaga og leggjum við áherslu á að kenna börnum frá unga aldri að temja sér hvoru tveggja. Leikumhverfi barnanna er þannig uppsett að það styðji sem mest við sjálfræði barnsins. Allt leikefni er geymt í merktum glærum plastkössum í opnum hillum. Börnin geta þannig náð sjálf í það leikefni sem þau vilja nota hverju sinni og gengið frá því að leik loknum.
Í Sólhvörfum nýtur hver einstaklingur virðingar og leggur sitt af mörkum til starfsins. Lögð er áhersla á að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki og þrói með sér samkennd, tillitssemi og vináttu. Leitast er við að koma til móts við þarfir allra og borin er virðing fyrir margbreytileika mannlífsins og öðrum menningarheimum.
Lögð er á það áhersla að barnið byggi upp þekkingu með eigin virkni. Tækið sem barnið notar til náms er leikurinn sem er kjarninn í uppeldi og menntun þess.
Virðing, sjálfræði og virkni eru gildi sem birtast einnig í vinnuskipulagi starfsmanna því mikil áhersla er á samhjálp, samvinnu og dreifða ábyrgð starfsmanna. Áhersla er á samræmingu milli deilda þannig að ákveðinnar samfellu gæti í áherslum yngri deilda á ýmiskonar færni í sjálfshjálp. Þannig verða þau betur undir það búin að flytjast yfir á eldri gang þar sem meiri kröfur eru gerðar á sjálfshjálpina.