Sími 441 7700 

Fréttir

Öskudagurinn

Búningagerð í Sólhvörfum

3.3.2017

Öskudagsbúningar í Sólhvörfum

Í leikskólanum Sólhvörfum hefur verið hefð frá upphafi að öll börn taki þátt í að hanna og búa til öskudagsbúninga. Í upphafi setjast kennarar með einu barni í einu og ræða hvað barnið vilji vera á öskudaginn. Síðan teiknar barnið mynd af sér í búningnum sem er vinnuteikning fyrir framhaldið. Þessi vinna tekur nokkrar vikur og er mjög skemmtilegt að sjá hvernig börnin eru með ólíkar og mismótaðar hugmyndir um búninginn sinn.

Næsta skref er að foreldrar komi með hvítan eða ljósan stuttermabol, helst endurnýttan, að heiman sem er grunnurinn að búningi barnsins. Hvert barn málar sinn bol á sinni deild og skreytir, síðan vinna þau aukahluti eins og höfuðföt og fylgihluti í listasmiðjunni með Ingibjörgu. 

Þær vikur sem vinnan fer fram er skólinn undirlagður af glimmeri, skrautsteinum, eggjabökkum sem fá nýtt líf sem kambar og grímum af ýmsu tagi. Síðan þarf að sauma og líma tjull og perlur svo búningarnir séu sem líkastir fyrirmyndinni.

Á Öskudaginn er síðan uppskeran. Gleðin og stoltið skín úr hverju andliti þegar þau klæðast búningnum og safnast saman til að slá köttinn úr tunnunni. Þau eru glöð yfir því að hafa útfært sína eigin hugmynd og þar sem allir geta ákveðið hvað þeir vilja vera er það bara þeirra eigið hugmyndaflug sem setur þeim skorður.

Fyrir utan það hvað börnunum finnst skemmtilegt að taka þátt í þessari vinnu er ferlið mjög spennandi fyrir starfsmenn sem takast líka á við sínar eigin fyrirfram gefnu hugmyndir. Börnin láta ekkert segja sér að það sé ekki hægt að vera hundur í baði, bíll eða hamborgari. Þau sjá ekki vandamál bara verkefni.

Í þessu erum við alltaf að læra óháð aldri. Þetta vefsvæði byggir á Eplica