Sími 441 7700 

Fréttir

Lubbahátíð á degi leikskólans

7.2.2017

Í gær fögnuðum við Degi leikskólans í Sólhvörfum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur víða í leikskólum á hverju ári þann 6. febrúar en í þetta skiptið slógum við upp Lubbahátíð til að minna á þennan flotta dag.

Í leikskólanum Sólhvörfum höfum við undanfarna tvo vetur unnið markvisst með málörvunarkennsluefni sem  byggist á bókinni Lubbi finnur málbein. Höfundar efnisins eru Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir talmeinafræðingar. Lubbi er með okkur á flestum stöðum leikskólans enda höfum við með stuðningi foreldrafélagsins keypt bækur á allar deildir, Hljóðasmiðjur Lubba sem eru viðbótar kennsluefni og sex Lubbabangsa sem hver deild hefur gert að sínum.  Einnig eru veggmyndir með málhljóðunum í öllum rýmum leikskólans.

Síðastliðið vor, þegar við tókum til við að skipuleggja sumarskólann, var ákveðið að bæta Lubbasmiðju við valmöguleika á smiðjum sem voru í boði úti. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og við sendum hugmyndir okkar inn í Lubbaleik leikskólanna um mitt sumar. Nú í haust fengum við senda viðurkenningu fyrir vel unnið verkefni og nýttum við tækifærið á Lubbahátíðinni til þess að afhenda Ingu Birnu og Írisi Dögg, sem ásamt Guðrúnu Svövu, höfðu veg og vanda af verkefninu síðastliðið sumar.

Í framhaldi af vel heppnaðri Lubbasmiðju um sumarið var ákveðið að leggja áherslu á málörvun og tengja Lubba við einn af heimunum okkar í Flæðinu. Þetta hefur gengið mjög vel og krakkarnir sækjast eftir því að taka þátt. Lubbi er einnig með sérstakar stundir á hverri deild og sjáum við mikinn árangur af starfinu hjá börnunum. Þess vegna var hverju barni færður Lubbaverðlaunapeningur á hátíðinni fyrir vel unnin störf. Á hátíðinni voru sungin uppáhalds Lubbalögin okkar sem eru lögin við A, B, D og P. Kennarar og börn áttu saman skemmtilega stund og það voru stolt börn sem sýndu foreldrum verðlaunapeningana þegar farið var heim í lok dags.

Við munum halda áfram að nýta okkur þetta frábæra efni enda er það aðgengilegt fyrir alla, bæði börn og fullorðna og sífellt hægt að finna nýjar leiðir til þess að vinna með það í leik og starfi.

Lubbi lengi lifi!
 Þetta vefsvæði byggir á Eplica