Sími 441 7700 

Lesið fyrir ung börn

Lesið fyrir ung börn

Nokkrar hugmyndir fyrir foreldra

Aðeins nokkurra mánaða gömul læra börn að skoða myndir í bók, hlusta þegar lesið er og benda á hluti á myndum. Lestur hjálpar barninu að öðlast ríkari orðaforða því orðaforði í bókum er annar og meiri en sá sem barnið heyrir í töluðu máli. Hér á eftir fara nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar lesið er fyrir börn á fyrsta og öðru aldursári.

  • Pappabækur með þykkum blaðsíðum rifna síður en aðrar. Þó er mikilvægt að barnið læri snemma að umgangast allar bækur af varúð og virðingu, opna, fletta, loka og ganga frá.
  • Leyfðu barninu að hjálpa til við að fletta blaðsíðum.
  • Börn eru hrifin af bókum sem eru með flipum sem lyfta má upp svo í ljós komi falin mynd á bak við.
  • Nefndu og bentu á hluti, dýr eða fólk sem eru á myndum bóka. Með því að vekja athygli á myndum og tengja orð og myndir sem og hluti í kringum þig lærir barnið grundvallarhugsunina að baki tungumálinu.
  • Æfðu barnið í að finna hluti á myndum. „Hvar er kisan?“ Hjálpaðu barninu að læra að benda með einum fingri.
  • Þegar barnið byrjar að nota orð, spyrðu t.d. „Hvað er þetta?“, „Hvað er hann að gera?“, „Er þetta önd?“.
  • Vertu góð fyrirmynd og gættu þess að barnið sjái þig einnig lesa bækur.
  • Með því að lesa bækur örvar þú ekki aðeins ímyndunarafl barnsins heldur einnig virka hlustun og málskilning. Þegar hrynjandi tungumálsins í gegnum lestur verður hluti af daglegu lífi barnsins eru meiri líkur á að lestrarnámið síðar meir verði jafn eðlilegt fyrir það eins og að læra að ganga og tala.

Heyrnar – og talmeinastöð Íslands 2016

http://hti.is/index.php/is/um-hti/frettir/654-hvetjum-boern-til-lestursÞetta vefsvæði byggir á Eplica